Listahátíð er þverfagleg listahátíð með áherslu á nýsköpun. Hún fer fram annað hvert ár í hefðbundnum og óhefðbundnum rýmum um alla borg og teygir sig jafnframt út fyrir borgarmörkin.

Listahátíð í Reykjavík hefur verið leiðandi afl í íslensku menningarlífi frá stofnun árið 1970. Hátíðin er þverfagleg listahátíð með áherslu á nýsköpun. Hún fer fram annað hvert ár í hefðbundnum og óhefðbundnum rýmum í borginni. Síðustu ár hefur viðvera Listahátíðar í landsbyggðunum aukist og er hátíðin nú með viðburði um allt land á hátíðartímanum.
Listahátíð í Reykjavík heldur utan um Eyrarrósina, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarverkefni í landsbyggðunum.
Hátíðin vinnur eftir þeim grunngildum að listir og menning séu ekki forréttindi fárra heldur réttur allra og hefur það að leiðarljósi í allri dagskrárgerð.
Frá stofnun hefur Listahátíð í Reykjavík boðið þúsundum listamanna víðs vegar að úr heiminum að koma fram eða sýna verk sín á hátíðinni. Með þessu hefur hátíðin hjálpað til við að skapa víðfeðmt tengslanet á milli innlendra og erlendra listamanna, verið hvati að sköpun nýrra verka og haft mikil áhrif á þróun menningarlegrar fjölbreytni á Íslandi.“







