Þjóðleikhúsið

Þjóðleikhúsið er leiðandi sviðslistastofnun í landinu sem sýnir fjölbreytt úrval sviðsverka með það að markmiði að efla áhuga á list leikhússins og auðga leikhúsmenningu hérlendis.

Um húsið

Á verkefnaskránni eru að jafnaði ný og eldri innlend og erlend verk, klassískar leikbókmenntir, söngleikir og barnasýningar, sem og sýningar af ýmsu tagi unnar í samstarfi við leikhópa, danslistafólk og listastofnanir. Sérstök rækt er lögð við innlenda nýsköpun og ný íslensk leikverk. Þjóðleikhúsið leggur einnig ríka áherslu á að efla áhuga og skilning yngri kynslóða á leikhúsinu með sýningum fyrir börn og unglinga og fræðslustarfi.

Leikið er á fjórum ólíkum leiksviðum í leikhúsinu, en Þjóðleikhúsið sýnir einnig sýningar á leikferðum um landið. Fastráðið starfsfólk leikhússins er um 100 manns, en einnig starfa tæplega 200 lausráðnir starfsmenn við leikhúsið á ári hverju. Eru þá ótaldir starfsmenn gesta- og samstarfsverkefna. Í Þjóðleikhúsinu starfar metnaðarfullt sviðslistafólk í fremstu röð, og leikhúsið á í samstarfi við heimsþekkta erlenda listamenn og leikhús.

Tengiliður:

Tinna Lind Gunnarsdóttir

Framkvæmdastjóri framleiðslu og skipulags

Netfang

tinnalind@leikhusid.is

Vefsíða

https://www.leikhusid.is

Svið / Rými

Stóra sviðið

Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 en tæknibúnaður Stóra sviðsins hefur stöðugt verið endurnýjaður í gegnum tíðina og sviðið býr yfir fullkomnu ljósa- og hljóðkerfi. Verið er að endurnýja í áföngum flugkerfi sviðsins. Sviðið hefur frá upphafi verið snúningssvið. Áhorfendasalurinn er með góðum sjónlínum og er útbúinn einum svölum. Framsvið er hægt að lækka og nýta undir áhorfendasæti eða hljómsveitargryfju. Áklæði á stólum í salnum var hannað af David Helldén og í loftinu eru sérsmíðaðar stuðlabergsmyndir. Veggir eru klæddir viðarplötum. Sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru hægra megin við aðalinngang við Hverfisgötu og þaðan er rampur niður að lyftuhúsi á austurhlið hússins. Lyftan tengir allar hæðir áhorfendarýmis leikhússins. Stæði fyrir hjólastóla í Stóra salnum eru hvort sínu megin við 6. bekk. Veitingaþjónusta er á 1. hæð og á Kristalsal á 2. hæð.

Tegund sviðs:

Proscenium

Áhorfendafjöldi:

500

Kassinn

Kassinn er leiksvið sem opnað var árið 2006 í Jónshúsi við Lindargötu 7. Kassinn er svokallað “black-box”-svið þar sem hægt er að færa til áhorfendabrekkur. Forsalur Kassans var endurgerður árið 2022, með bættri aðstöðu gesta og veitingaþjónustu, en hann nýtist einnig gestum á Litla sviðinu sem er á neðstu hæð hússins. Gengið er inn frá Lindargötu. Sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða er fyrir framan aðalinngang Kassans við Lindargötu og þar er rampur inn í húsið. Stæði fyrir hjólastóla eru í fremstu röð.

Tegund sviðs:

Black box

Áhorfendafjöldi:

130

Leikhúskjallarinn

Taumlaus skemmtun og einstök upplifun fyrir áhorfendur kvöld eftir kvöld! Spuni, uppistand, kabarett, drag, tónlist, gamanóperur, fjölmenningarveisla, leiksýningar, hádegisleikhús og alls konar fjör!

Tegund sviðs:

Multi-purpose

Áhorfendafjöldi:

100

Litla sviðið

Litla sviðið er á neðstu hæð í Jónshúsi við Lindargötu 7. Á Litla sviðinu eru margar af smærri barnasýningum Þjóðleikhússins sýndar, en einnig samstarfsverkefni og sýningar fyrir aðra aldurshópa. Á Litla sviðinu nýtur þú einstakrar nándar við leiksviðið. Mögulegt er að færa áhorfendabrekkur. Gengið er inn frá Lindargötu. Unnið er að úrbótum á aðgengi að Litla sviðinu, en sem stendur er aðgengi fyrir hreyfihamlaða á vesturhlið hússins. Stæði fyrir hjólastóla er við aftasta bekk.

Tegund sviðs:

Black box

Áhorfendafjöldi:

100