Það er oft sagt að dans geti tjáð hið óræða. Gleði, sorg og örvænting verður sýnileg; líkamleg birtingarmynd sameiginlegrar viðkvæmni okkar. Með þessu getur dansinn vakið samkennd, hvatt til góðvildar og kveikt þrá til þess að græða frekar en að særa.
Sérstaklega nú - þar sem hundruð þúsunda þjást vegna stríðs, takast á við pólitískar óeirðir og rísa upp til að mótmæla óréttlæti - er mikilvægi einlægrar íhugunar ótvírætt. Það er þung byrði að leggja á líkamann, á dansinn, á listina. Samt sem áður er listin enn besta leiðin til þess að gefa hinu óræða form og við getum byrjað með því að spyrja okkur sjálf: Hvar liggur minn sannleikur? Hvernig heiðra ég sjálfan mig og mitt samfélag? Gagnvart hverjum ber ég ábyrgð?
Mikhail Baryshnikov (Lettland/Bandaríkin), dansari og danshöfundur
Fæddur í Riga, Lettlandi og búsettur í New York borg, Mikhail Baryshnikov er talinn vera einn af merkustu dönsurum okkar tíma. Á meiri en 50 ára starfsferli hans innan dans, leiklistar, sjónvarps og kvikmynda, hefur hann unnið með heimsfrægum danshöfundum og leikstjórum. Eftir glæsilega byrjun með Kirov Ballettnum í Leníngrad, fór hann vestur yfir hafið árið 1974 og var aðaldansari hjá American Ballet Theatre (ABT). Árið 1978 gekk hann til liðs við New York City Ballet, þar sem hann starfaði með George Balanchine og Jerome Robbins. Árið 1980 varð hann listrænn stjórnandi ABT, þar sem hann næsta áratuginn kynnti nýja kynslóð dansara og danshöfunda. Árið 1990, með stofnaði Mr. Baryshnikov White Oak Dans Verkefnið með danshöfundinum Mark Morris með því markmiði að víkka út efnisskrá og sýnileika á amerískum nútímadansi. Árið 2005 setti hann á fót Baryshnikov Arts í New York borg, skapandi rými sem hannað var til að styðja við fjölbreytta listamenn víðsvegar að úr heiminum.
Þýðandi Lilja Björk Haraldsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara.
Ég hef dansað síðan ég man eftir mér. Þegar ég var ungabarn dönsuðu foreldrar mínir með mig í fanginu til að sefa eyrnabólgubarnið sitt. Fjögurra ára stóð ég fyrir daglegum danssýningum í stofunni heima, fimm ára hóf ég dansnám og átján árum seinna útskrifaðist ég sem atvinnudansari. Síðan þá hef ég helgað störf mín danslistinni og fengið tækifæri til að færa „stofuna heima“ í alþjóðlegt samhengi með sýningarferðum víða um lönd.
Ég man enn eftir “Er þetta Súperman?” dansinum í barnaskóla, fyrsta vangadansinum, hitanum á dansgólfinu á skemmtistöðum, þegar ég dansaði frá mér ástarsorg, fyrstu dansprufunni, fyrstu sýningunni sem atvinnudansari, óvæntum eldhúsdansi með mínum nánustu, þegar ég meiddist og gat ekki dansað og þegar ég notaði dansinn til að koma mér aftur á fætur. Dansinn hefur verið mér sálufélagi, tjáningarform, líkamsrækt og atvinna.
Þegar ég dansa ein heima í stofu næ ég að gleyma stund og stað. Það lækkar í hávaða hversdagsins og áreitið minnkar. Ég heyri betur í sjálfri mér, heyri betur í líkamanum. Ég finn fyrir vöðvunum, liðunum, æðunum, beinunum.
Andardrátturinn breytist, blóðið rennur örar og hjartað slær taktinn. Ég leyfi líkamanum að taka stjórn og innra lífið hrindir af stað öldu hreyfinga. Stundum eru þær hægar og mjúkar, aðra daga kröftugar og jafnvel harkalegar. Ég finn hvernig losnar um streituna og spennan minnkar. Ég renn saman við alheimsflæðið og næ dýpri tengingu við innsæið, sköpunarkraftinn, hjartastöðina og líkamann. Allt verður aðeins skýrara, aðeins mýkra, aðeins viðráðanlegra.
Þegar ég dansa með öðrum finn ég fyrir mannlegri tengingu. Rökhugsunin fær að hvíla sig og ég stíg inn í sameiginlegt flæði líkama. Líkama með ólíka reynslu og sögu. Líkama sem geyma djúpa visku og marglaga upplýsingar.
Líkama sem dansinn sameinar þetta augnablik.
Þegar ég dansa á sviði upplifi ég annars konar tenginu. Ég finn hvernig öll skynjun verður næmari og ég upplifi valdeflandi kraft þegar ég mæti orkunni frá áhorfendum. Orkan mín og orkan þeirrra renna saman og listaverkið lifnar við. Dansinn er alþjóðlegt tungumál sem getur snert hug og hjörtu þvert á menningarheima. Hver og einn hefur frelsi til að skilja listaverkið ásinn hátt, útfrá eigin reynslu og bakgrunni. Þannig verða til óteljandi sögur og óteljandi tengingar sem mynda vef langt út fyrir leikhúsið.
Ég hef upplifað á eigin skinni töframátt dansins og fundið fyrir umbreytandi krafti hans. Í mínum huga er dansinn heilandi afl sem getur stuðlað að sameiningu í heimi þar sem sundrung verður sífellt meira vandamál.
Ég óska þess að dansinn verði stærri hluti af lífi okkar allra. Ég óska þess að þjóðarleiðtogar heimsins fái tækifæri til að dansa sem oftast og nái þannig dýpri tengslum við innsæi sitt, samvisku, samkennd og mennsku, einir sér og hver með öðrum. Umfram allt óska ég okkur öllum frelsis til að dansa, hvar sem er og hvenær sem er.
Megi dansinn breyta heiminum til hins betra.
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir
Hinn margverðlaunaði dansari og danshöfundur Lovísa Ósk Gunnarsdóttir hefur dansað allt sitt líf. Hún byrjaði að koma fram í stofunni heima hjá sér þegar hún var fjögurra ára og var fullgildur meðlimur Íslenska dansflokksins í sextán ár. Lovísa ferðaðist víða um heim með flokknum, ásamt því að vinna með ýmsum sjálfstæðum danshópum, þar sem hún kom stöðugt fram, skapaði og vann með fjölbreyttum hópi listamanna.
Fyrir fimm árum hóf hún meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands, þar sem hún þróaði listræna iðkun sína og framkvæmdi rannsóknir sem tengdust öldrun, tengslum við djúpt rótgróna líkamsþekkingu, sögu og reynslu. Á eftir fylgdi meistaranám í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.
Síðan þá hefur Lovísa ferðast um Evrópu með útskriftarverk sitt „When the Bleeding Stops.“ Lovísa hefur starfað sem sjálfstæður danshöfundur, kennari og sviðslistamaður á Íslandi og hefur skapað verk fyrir Íslenska dansflokkinn, Reykjavík Dance Festival og Borgarleikhúsið svo nokkur dæmi séu nefnd. Lovísa hefur hlotið verðlaun og tilnefningar fyrir störf sín bæði sem danshöfundur og dansari og er nú listdansstjóri Íslenska Dansflokksins.