
Vel heppnaður viðburður í Viirus-leikhúsinu þar sem flutt voru brot úr verkum Hrafnhildar Hagalín og Tyrfings Tyrfingssonar.
Sviðslistamiðstöð Íslands, í samstarfi við Sendiráð Íslands í Finnlandi, Íslandsstofu, Viirus-leikhúsið og Nordic Drama Corner, stóð fyrir vel heppnaðri kynningu á íslenskum leikskáldum í Viirus-leikhúsinu í Helsinki, mánudaginn 3. nóvember.
Viðburðurinn var afar vel sóttur og mættu um 50–60 gestir — meðal annars fulltrúar finnskra leikhúsa og menningarstofnanna, leikskáld, leikstjórar og dramatúrgar — til að kynnast nýrri íslenskri leikritun og efla tengsl milli íslensks og finnsks leikhúslífs.
Eftir ávarp frá Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Finnlandi, kynnti Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar stöðu og þróun íslensks sviðslistaumhverfis. Að því loknu voru fluttar leiklesnar senur úr tveimur nýjum íslenskum verkum sem endurspegla breidd og sköpunarkraft íslenskrar leikritunar.
Flutt voru brot úr Heim eftir Hrafnhildi Hagalín í þýðingu Tapio Koivukari, sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í febrúar 2025 og Rými fyrir ást (Space for Love) eftir Tyrfing Tyrfingsson í þýðingu Marjakaisa Matthíasson, sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á næta leikári.
Leiklestrarnir voru fluttir á finnsku af framúrskarandi leikhópi — Marjaana Maijala, Anna Airola, Aleksi Holkko og Timo Ruuskanen — og fylgdu þeim líflegar umræður við leikskáldin ásamt móttöku þar sem gestir nutu góðs félagsskapar og tækifæris til tengslamyndunar.
Daginn eftir hélt íslenska sendinefndin áfram heimsókn sinni og átti fjölda funda og óformlegra samtala við fulltrúa finnskra leikhúsa og listamanna, þar sem rætt var um möguleg framtíðarsamstarf milli íslensks og finnsks sviðslistafólks.
Viðburðurinn í Helsinki er liður í verkefni Sviðslistamiðstöðvar Íslands sem miðar að því að kynna íslensk leikskáld erlendis og efla skapandi samtal á sviði leiklistar á Norðurlöndum.
Næsti viðburður í röðinni fer fram í Ósló þriðjudaginn 11. nóvember, í Sendiráði Íslands í Noregi, í tengslum við hátíðahöld á Degi íslenskrar tungu.


