
Vel heppnaður viðburður fór fram í sendiráðsbústað Íslands í Osló þar sem flutt voru brot úr nýjum verkum Hrafnhildar Hagalín og Tyrfings Tyrfingssonar.
Sviðslistamiðstöð Íslands, í samstarfi við Sendiráð Íslands í Noregi, Íslandsstofu og Sviðslistamiðstöðina, stóð fyrir kynningu á íslenskri leikritun þriðjudaginn 11. nóvember. Sendiherra Högni Kristjánsson og sendiherrafrú Ásgerður Magnúsdóttir tóku á móti gestum af hlýju og natni.
Eftir stutt ávarp sendiherra kynnti Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar Íslands, stöðu og þróun íslensks sviðslistaumhverfis. Að því loknu voru fluttar senur úr tveimur nýjum íslenskum leikritum:
– Heim eftir Hrafnhildi Hagalín, í þýðingu Maren Barlien
– Rými fyrir ást (Space for Love) eftir Tyrfing Tyrfingsson, í þýðingu Maren Barlien
Leiklestrarnir voru fluttir á norsku af frábærum leikurum: Nönnu Lundevall, Fredrik Aakerhus, Anderz Eide og Helen Vikstvedt.
Að leiklestri loknum var boðið upp á móttöku þar sem gestir spjölluðu saman, ræddu við leikskáldin og kynntu sér verkin frekar. Þar gafst gott tækifæri til að efla tengsl milli íslensks og norsks leikhúsfólks og ræða möguleika á miðlun leikverka milli landa.
Daginn eftir átti íslenska sendinefndin fundi með fulltrúum Nationaltheatret, Det Norske Teatret og Vega Scene, þar sem rætt var um tengslamyndun, kynningarleiðir og áframhaldandi samstarf á sviði leikritunar.
Viðburðurinn í Osló markaði lokaviðburð í röð kynninga á íslenskum leikskáldum á árinu 2025. Fyrsti viðburðurinn fór fram í Berlín í september, sá næsti í Helsinki 3. nóvember, og með viðburðinum í Osló lauk verkefninu á fallegan og kraftmikinn hátt.
Markmiðið með verkefninu er að kynna íslensk leikskáld erlendis, efla skapandi tengslanet og styðja við miðlun verka á milli landa.
Ljósmyndir: Myriam Marti Fotografi og FS Foto



